Sendiherrar lífs og kærleika



Íslenska björgunarsveitin hefur svo sannarlega verið ljós í myrkri
eyðileggingar, angistar og dauða á Haítí á undanförnum dögum. Hún var
ein af fyrstu alþjóðasveitunum sem komu á vettvang, vel búin, í topp
þjálfun, öguð og skipulögð, og hefur starfað þrotlaust myrkvanna á milli
við aðstæður sem enginn getur gert sér í hugarlund að óreyndu.
Sveitin hefur bjargað einstaklingum frá þeim ólýsanlegu hörmungum að
verða grafnir lifandi og hún hefur vakið verðskuldaða athygli í
alþjóðlegum fréttum víða um heim.
Ekkert okkar sem heima sitjum getum nokkurn tíma ímyndað okkur það
andlega og líkamlega álag sem ruðningssveitirnar og aðrir hjálparaðilar
vinna undir. Síðan halda björgunarsveitir heim og annars konar
hjálparstarf tekur við. En hver og einn þeirra einstaklinga sem nú tekur
þátt í björgunarstarfinu tekur með sér í farteskinu heimleiðis reynslu
af ólýsanlegum hörmungunum.sem viðkomandi gleymir aldrei.
Með fullri virðingu fyrir heimsþekktum íslenskum listamönnum og
sigursælum handknattleiksliðum er íslenska björgunarsveitin á Haíti sá
hópur Íslendinga sem við eigum að taka ofan fyrir. Þau eru svo
sannarlega sendiherra lífs og kærleika.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband