Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Deildum lokað og ekki hægt að bjóða laus pláss

Enn vantar í um hundrað stöðugildi á leikskólum borgarinnar miðað við þann fjölda barna sem þar eru nú. Ef jafnframt væri tekið mið af þeim börnum sem á eftir að taka inn í leikskólana væri þessi tala mun hærri. Manneklan hefur haft þær afleiðingar  að loka hefur þurft deildum og ekki hefur verið hægt að bjóða laus pláss eða taka inn börn í aðlögun. Við blasir enn frekari þjónustuskerðing ef ekki tekst að manna í lausar stöður fyrir veturinn.

Á sama tíma í fyrra vantaði í um 105 stöður en þá  tókst ekki að ráða í nema um helming þeirra.  Sú mannekla jók álagið á þá starfsmenn sem fyrir voru með þeim afleiðingum  að stundum þurfti að senda börnin heim fyrr, jafnvel á miðjum degi.

Að beiðni okkar sjálfstæðismanna  var umræða um manneklu í leikskólum, grunnskólum og á frístundaheimilum sett á dagskrá borgarstjórnar í gær. Fátt var um svör hjá meirihlutanum um hvernig leysa megi þennan vanda annað en að unnið sé að þessu brýna verkefni með margvíslegum hætti og að skóla- og frístundasvið styðji við þá skóla þar sem staðan er þyngst með ýmsum hætti. Með hvaða hætti skyldi það nú vera þegar ekki tekst betur til og Reykjavíkurborg stendur hlutfallslega verst allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að því að manna þessi störf.

 

 


Unga fólkið flýr vegna lóðaskorts

Í umræðum  í borgarstjórn í dag við tillögu okkar sjálfstæðismanna um aukið lóðaframboð í Úlfarsárdal,staðfesti borgarstjóri og meirihlutaflokkarnir, Björt framtíð, Píratar, Samfylking og Vinstri Græn að áfram verður lögð áhersla á og stutt við uppbyggingu á dýrustu þéttingarreitunum í borginni, í stað þess að borgin úthluti eigin lóðum á viðráðanlegu verði í fjölskylduvænum hverfum, sem gerir ungu fólki kleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þessi lóðaskortsstefna borgarstjórnarmeirihlutans hefur leitt til þess að unga fólkið leitar í önnur sveitarfélög eftir húsnæði. Það þarf ekki annað en að fletta fasteignaauglýsingum til að sjá að verðið á nýjum íbúðum á þéttingarreitum er allt of hátt til þess að unga fólkið ráði við það. Þetta virðast allir vita nema borgarstjórinn og meirihlutaflokkarnir. Það mætti halda að það væri stefna þeirra að fækka útsvarsgreiðendum í Reykjavík.

 


Súrmjólk í hádeginu og Cheerios á kvöldin.....

Grafalvarleg staða er komin upp í leikskólum borgarinnar, senda þarf börnin fyrr heim og maturinn sem er á boðstólum uppfyllir ekki lengur almenn manneldismarkmið. Þrátt fyrir að allar viðvörunarbjöllur hafa klingt lengi og þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar okkar sjálfstæðismanna um að fallið verði frá ýmsum kostnaðarsömum gæluverkefnum til að komast hjá sársaukafullum niðurskurði í grunnþjónustinni hefur það ekki verið gert. Ítrekað höfum við bent á að niðurskurður á fæðisgjaldi myndi bitna á gæðum skólamáltíðanna. Nú er það komið á daginn að  hluta fæðisgjaldsins er ráðstafað til annars en hráefniskaupa þannig að leikskólar neyðast til að fjölga ódýrari og óhollari máltíðum. Það er ekki að furða að við þessi tíðindi komi laglínan súrmjólk í hádeginu og Cheerios á kvöldin upp í hugann.


Dagur B. hjólar í borgarbúa

Forgangsröðun borgarstjórnarmeirihlutans er með eindæmum. Á meðan leik- og grunnskólar í borginni eru komnir langt yfir þolmörk og hafa verið fjársveltir til margra ára þá finnst borgarstjóranum Degi B. Eggertssyni mikilvægara að kaupa land af ríkinu, þar sem neyðarbrautin er, upp á 440 milljónir í stað þess að nýta þessa fjármuni í lögboðna þjónustu í þágu skólabarna í Reykjavík. Þessi kaup hans eru reyndar í mikilli andstöðu við vilja borgarbúa sem vilja frekar hafa flugvöll í Vatnsmýrinni en blokkir. Hver undirskriftasöfnunin á fætur annarri er gerð að engu og nú er hafin undirskriftasöfnun foreldra leikskólabarna í Reykjavík þar sem skorað er á borgaryfirvöld að snúa vörn í sókn í skólamálum. Þessi forgangsröðun Dags B. og meirihlutans í borginni er óverjandi því borgaryfirvöldum ber  skylda til að láta lögboðna þjónustu ganga fyrir en ekki hrossakaup á landi. Svona hjólar Dagur í borgarbúa í hverju málinu á fætur öðru.


Ekki nóg að setja fram stefnu í fallegum umbúðum og fínum orðum

Hér í borgarstjórn er í gangi umræða um skýrslu starfshóps um lýðheilsu og heilseflingu barna og unglinga í skóla- og frístundastarfi og heilsueflandi hverfi.Það sem vekur athygli er að þar eru sett fram almenn markmið sem eru góð og gild í sjálfu sér því öll viljum vð auðvitað auka lýðheilsu. En það er hins vegar ekki nóg að setja fram stefnu í fínum orðum og fallegum umbúðum en ekki minnast einu orði á hvernig á að fjármagna hana eða settar fram skýrar aðgerðir hvernig á að ná fram markmiðum hennar. Það er t.d. ekki nóg að tala um að vilja auka hreyfingu barna á sama tíma og margar skólalóðir og opin leiksvæði eru í mikilli niðurníðslu og þarfnast endurbóta. Ekkert kemur heldur fram hvort bæta eigi loftgæði þannig að hægt sé að fækka þeim dögum sem halda þarf börnum á leikskólum inni þegar loftmengun fer kyfir viðmiðunarmörk og frjókornamagn í lofti er of mikið vegna trassaskapar við umhirðu og slátt. Það verður fróðlegt að sjá hvernig meirihlutinn ætlar að efla lýðheilsu í hverfum borgarinnar þegar t.d. opnunartímar sundlauga hafa verið skertir, byggt er á hverjum einasta græna bletti í eldri hverfum borgarinnar og möguleikar íbúa til að fá afnot af íþróttasölum borgarinnar eru ekki til staðar og aðstaða til almenningsíþrótta af skornum skammti. Því miður hefur það gerst allt of oft að fínar stefnur eru samþykktar í borgarstjórn sem daga svo uppi í skúffum borgarkerfisins vegna þess að þeim fylgir hvorki fjármagn né tímasett aðgerðarplan.


Framkvæma fyrst og spyrja svo

Stjórnsýslan í Reykjavík tekur á sig sífellt skringilegri myndir. Á borgarstjórnarfundi í dag er á dagskrá ákvörðun borgarstjórnar að bjóða út framkvæmdir við Grensásveg en útboðið var hins vegar auglýst í fjölmiðlum á laugardaginn var. Það á sem sagt að samþykkja eftir á það sem búið er að framkvæma. Til hvers er borgarstjórinn og meirihlutaflokkarnir þá yfir höfuð að boða til borgarstjórnarfunda þegar svona vinnubrögð eru viðhöfð og þegar þeir telja sig hvort sem er ekki þurfa að spyrja hvorki kóng né prest að einu eða neinu. Einræðistilburðir Dags B. og Co eru orðnir yfirgengilegir. Ekki bara í þessu máli heldur mörgum fleirum.


Friðarspillir fari úr Rögnunefndinni

Á borgarstjórnarfundi í dag er til samþykktar framkvæmdaleyfi vegna uppbyggingar Hlíðarendasvæðis sem þýðir að uppbygging hefst þar fljótlega. Degi B. Eggertssyni er að takast ætlunarverk sitt að loka neyðarbrautinni og koma flugvellinum úr Vatnsmýrinni þrátt fyrir að Rögnunefndin sé enn að störfum og þrátt fyrir það að innanríkisráðherra hafi ítrekað það í lok árs 2013 að flugbrautinni verði ekki lokað eða aðrar ákvarðanir teknar sem leiða til þess að flugbraut 06/24 verði tekin úr notkun meðan Rögnunefndin er enn að störfum. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að Dagur B. situr einmitt í nefndinni og ætti að vera fullkunnugt um það samkomulag sem gert var um störf hennar. Með ákvörðun sinni hefur hann rofið þá sátt sem ríkt hefur um störf nefndarinnar og ætti því að segja sig frá henni.

 


Dagur B. heldur blekkingarleik sínum áfram við kjósendur

Í morgun kynnti Dagur B. Eggertsson uppbyggingaráform sín í Reykjavík. Athygli vakti að áfram heldur hann blekkingarleik sínum við kjósendur og hann ætlar að halda sínu striki og fara gegn vilja borgarbúa þrátt fyrir fögur fyrirheit í samstarfssáttmála meirihlutans um að auka samráð og íbúalýðræði. Hann ætlar að keyra í gegn skipulagið við Hlíðarenda sem leggur af Neyðarbrautina þrátt fyrir að 70 þúsund einstaklingar hafa skrifað undir áskorun til borgarinnar um að flugvöllurinn geti áfram gegnt sínu mikilvæga hlutverki í Vatnsmýrinni. Blekkingarleikur Dags felst í því að í einu orðinu boðar hann að hefja eigi uppbyggingu sem fyrst á Hlíðarenda sem skerðir möguleika Rögnunefndarinnar til að komast að niðurstöðu í flugvallarmálinu en í hinu orðinu segir hann að beðið verði með uppbyggingu í Skerjafirði meðan Rögnunefndin er að störfum. Það þarf enga stjarneðlisfræðinga til að sjá að þarna er Dagur B. Vísvitandi að slá ryki í augu fólks því ef Neyðarbrautin fer vegna Hlíðarendasvæðiðs þá opnast leið til uppbyggingar í Skerjafirði og stutt verður í að þar verði hafist handa við framkvæmdir með 3500 manna byggð.

 


Á blikkandi bláum ljósum

Það er afar mikilvægt að Reykvíkingar geri sér grein fyrir samgöngustefnu núverandi bogaryfirvalda og alvarlegum afleiðingum hennar.

 

Sú stefna á rætur að rekja í „and-
bílastefnu“ ýmissa umhverfissinna sl. 
40 ár. Henni er ætlað að bylta ferða-
venjum borgarbúa með samgöngu-
samningi við ríkið þar sem borgaryf-
irvöld afþakka vegaframkvæmdir frá 
ríkinu fyrir tugi milljarða á næstu ár-
um, og með hindrunum um alla 
borg sem eiga að hægja á allri umferð.

 

 

Í bókun Besta flokksins, Samfylk-
ingar og Vinstri grænna í borgarstjórn 
þann 17. apríl 2012, segir um þennan samning: 
„Með þessum samningi verður stigið 
afar mikilvægt skref í aðkomu ríkisins 
að rekstri almenningssamgangna og ef 
vel er haldið á spilum gæti hér verið 
um að ræða upphafið að algerri bylt-
ingu í samgöngum á höfuðborgarsvæð-
inu.“

 

 

Þar höfum við það. Stefnt er að 
„byltingu“ en sú bylting, eins og allar 
sósíalískar byltingar, er byggð á mis-
skilningi.

 

Umferðarþungi og fólksfjöldi

 

Ein áhrifaríkasta 
kenning einkabílaandstæðinga felst í 
þeirri alhæfingu að einkabílum í um-
ferð fjölgi í réttu hlutfalli við það rými 
og þau mannvirki sem honum eru ætl-
uð: „Bættu við akrein og hún fyllist af 
einkabílum. Bættu við bílastæðum og 
þau fyllast líka. Þess vegna þarf að 
rjúfa vítahringinn með því að herja á 
einkabílinn.“

 

 

Þessi kenning er sannfærandi en 
hún er röng. Hún á ekki við á höfuð-
borgarsvæðinu og yfirleitt ekki á Ís-
landi, því umferðarþungi er fyrst og 
síðast háður fólksfjölda. Það er rétt að 
einkabílaeign er almennari hér á landi 
en í nágrannalöndum okkar. En hún er 
reyndar svo almenn að við nálgumst 
þau mörk að vera með ökutæki á hvert 
ökuskírteini. Verði því marki náð segir 
það sig sjálft að ökutækjum í umferð 
fjölgar ekki umfram ökumenn því eng-
inn ekur tveimur bílum samtímis.

 

Framfarir eða pólitísk þvingun

 

Annar galli á blindri andstöðu við 
einkabíla felst í vanmati á þeim öru 
framförum sem orðið hafa á einkabílum 
á sl. 10-20 árum. Þetta á ekki síst við 
um stóraukna eldsneytisnýtingu, orku-
sparnað og miklu minni loft- og hávaða-
mengun en bifreiðar ollu fyrir einungis 
áratug. Auk þess eru stöðugt í deigl-
unni rannsóknir og tilraunir með raf-
bíla, minni borgarbíla og margvíslegan 
tölvubúnað sem miðar að stórauknu 
umferðaröryggi.

 

Heildarsýn á samgöngumál

 

Fordómar borgaryfirvalda persónu-
gera einkabíla sem holdtekju hins illa 
og skilgreina stofnbrautir sem sérstök 
mannvirki þeirra. Þess vegna á að 
frysta stofnbrautaframkvæmdir.

 

 

En hér horfa menn fram hjá þeirri 
staðreynd að stofnbrautarframkvæmd-
um er í síauknum mæli ætlað að draga 
þunga umferð frá nærumhverfi okkar, 
færa hana í stokka og endurheimta 
vistvænt umhverfi, draga úr slysa-
hættu, draga úr hávaða- og loftmengun 
bíla í lausagangi, styrkja öryggisþætti 
er lúta að sjúkraflutningum og al-
mannavörnum og auka almenna hag-
kvæmni og skilvirkni. Gegn allri þess-
ari viðleitni er nú unnið með fordómum.

 

 

Við eigum ekki að einblína á einn 
samgöngukost og herja á hann. Við eig-
um að skoða samgöngur í heild með 
opnum huga og vinna markvisst og vís-
indalega gegn öllum neikvæðum þátt-
um umferðar.

 

Umferðaslys og tómlæti

 

Hér vega auðvitað þyngst alvarleg 
umferðarslys. Kostnaður samfélagsins 
vegna alvarlegra umferðarslysa var 
metin á 23 milljarða króna á verðlagi 
ársins 2009. Þó verða perónulegir 
harmleikir skelfilegra slysa aldrei 
metnir til fjár.

 

 

Í Reykjavík eiga sér stað 43% af öll-
um alvarlegum umferðarslysum hér á 
landi. Af 20 hættulegustu gatnamótum 
landsins eru 19 þeirra í Reykjavík. Allar 
tölur sýna að gerð mislægra gatnamóta 
þar sem áður voru umferðarþung 
gatnamót í plani, útrýma nær alveg 
slysum á slíkum stöðum. En hver eru 
viðbrögðin við þessum staðreyndum?

 

 

Framlög til nýframkvæmda og við-
halds á umferðarmannvirkjum í 
Reykjavík á árunum 2007-2011 voru 
2,1. %. af heildarframlagi ríkisins til 
samgöngumála. Á árinu 2011 var hlut-
fallið einungis 1%. Á árinu 2012 var 
þetta framlag 0% og svo á að verða 
næsta áratuginn samkvæmt byltingar-
samningum sem borgaryfirvöld gerðu 
við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardótt-
ur. Þar með verða fimm áætluð mislæg 
gatnamót, samkvæmt gildandi aðal-
skipulagi, slegin af.

 

 

Við Reykvíkingar eigum eftir að 
upplifa byltingar í samgöngumálum. 
En það verða byltingar í frjálsri þróun 
samgönguhátta – tæknibyltingar og 
byltingar í lífsstíl einstaklinga 
sem ráða sjálfir lífi sínu og ferðamáta.

 

 

Pólitískar byltingar borgaryfirvalda 
eru hins vegar byggðar á misskilningi 
og keyrðar áfram, eins og allar sósíal-
íksar byltingar, af hroka, þvingunum 
og afturhaldssemi.

 


marta.is Ný síða!

Kæru lesendur.

Ég hef opnað nýja síðu fyrir skrif mín og fréttir af mínum störfum. Kíkið endilega á síðuna og smellið eins og einu Læki á til að fá tilkynningar um ný skrif.

Slóðin er einfaldlega marta.is

marta.is

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband