Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Auknar álögur kosta fjölskyldu tæpar 800 þúsund á kjörtímabilinu


Fréttatilkynning frá borgatstjórnarflokki sjálfstæðismanna
 Aðhald í rekstri borgarinnar ábótavant- Auknar álögur kosta fjölskyldu tæpar 800 þúsund á kjörtímabilinu
Seinni umræða um ársreikning Reykjavíkurborgar 2012 fór fram á borgarstjórnarfundi í dag.  Þetta er annað fjárhagsárið sem meirihluti Besta flokks og Samfylkingarinnar hefur haft tækifæri til þess að setja alfarið mark sitt á borgarreksturinn.  Og annað árið í röð er taprekstur í borginni sem gefur til kynna að aðhald í rekstri borgarinnar sé ábótavant.
 
Samanlögð rekstrarniðurstaða áranna 2011 og 2012 í A- hluta ársreikningsins er neikvæð um 2,8 milljarða króna. En samanlögð rekstrarniðurstaða tveggja ára þar á undan þegar fyrrverandi meirihluti var við stjórn var jákvæð um 4,7 milljarða króna.  Á tímabili núverandi meirihluta hefur aðhaldið verið ófullnægjandi og kerfið vaxið á kostnað borgarbúa með skatta- og gjaldskrárhækkunum. 
 
Lítið sem ekkert hefur verið hagrætt í kerfinu.  Þær aðgerðir sem mest áhersla var lögð á, hafa ekki ekki skilað þeirri niðurstöðu sem að var stefnt.   Þannig fór meirihlutinn í sársaukafullar breytingar á skóla- og frístundakerfi borgarinnar sem var harðlega gagnrýnt af foreldrum og starfsmönnum.  Auk þess hefur verið farið í breytingar á stjórnkerfinu þar sem markmiðið var mjög óskýrt.  Komið hefur í ljós að þessar hagræðingar skila afar litlum ávinningi og var það staðfest í skýrslu úttektarnefndar á stjórnsýslu borgarinnar sem birt var í apríl.


Auknar álögur kosta fjölskyldu tæpar 800 þúsund á kjörtímabilinu 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa tekið saman dæmi um 5 manna fjölskyldu með meðallaun sem á litla íbúð og þarf að greiða skatta og gjöld í Reykjavík. Þessi fjölskylda mun í lok ársins hafa greitt 800 þúsund krónur umfram það sem hún hefði gert án hækkana núverandi meirihluta frá árinu 2010.   


Þess má geta að á árunum 2010 – 2013 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 13% en hækkanir á þjónustu borgarinnar nema um 20% á sama tíma. Skattar og gjöld borgarinnar hafa því á þessu sama tímabili hækkað um 7% umfram vísitölu.  

Það er auðvelt að stjórna með því að taka stöðugt fé af fjölskyldum og fyrirtækjum í borginni. Mun skynsamlegra, sanngjarnara og farsælla hefði verið að nýta það svigrúm sem til að hagræða í kerfinu og auðvelda almenningi að takast á við erfiða tíma.  
 

Viðbrögð borgarinnar við bankahruni og hagræðingu 2009 hrósað

Viðbrögð borgarinnar við bankahruni viðurkennd og hagræðingu 2009 hrósað
Til fjölmiðla
Frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins
Skýrsla úttektarnefndar borgarstjórnar á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar var rædd á borgarstjórnarfundi í dag. Í skýrslunni eru yfir hundrað góðar og þarfar ábendingar um það sem má betur fara í borgarkerfinu og er það ósk borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að efnt verði til þverpólitísks samstarf um að nýta þessar ábendingar í þágu skilvirkara borgarkerfis.
Athygli vekur að í kaflanum um úttekt á áhrifum bankahrunsins 2008 (Kafli 9) er borgarstjórn sérstaklega hrósað fyrir viðbrögð við hruninu og þá sérstaklega þeirri þverpólitísku samstöðu sem náðist að koma á:
„Telur úttektarnefndin að borgaryfirvöld hafi brugðist við þessum áföllum strax og þau þóttu fyrirsjáanleg á árinu 2008 og að sú pólitíska samstaða sem náðist um viðbrögð við vandanum hafi verið mjög mikilvæg í því efni.” (Bls. 12)
Einnig er fjallað sérstaklega um fjárhagsáætlanagerð 2009 þar sem borgarstjórn fór nýjar leiðir sem skilaði hagræðingu um 2,3 milljarð. Þessi nýstárlega aðferðarfræði þar sem 3000 starfsmenn borgarinnar tók þátt hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinanna. Skýrsluhöfundar nefna þetta sérstaklega:
„Fór mikil vinna í að undirbúa fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir 2009 en hún einkenndist um margt af nýjum vinnubrögðum. Þar var meðal annars kallað eftir tillögum og ráðgjöf allra starfsmanna um hvernig ná mætti fram nauðsynlegum sparnaði.” (bls.176)
Það er ánægjulegt að fá staðfestingu á því að brugðist hafi verið við efnhagsástandinu á þann hátt að til eftirbreytni sé. Ný vinnubrögð og samstaða milli borgarfulltrúa skilaði sér í aukinni starfsánægju á meðal starfsmanna og lítilli sem engri þjónustuskerðingu til borgarbúa. Markmið borgarstjórnar á að vera að finna lausnir innan stjórnsýslunnar áður en farið er í þjónustuskerðingar sem hafa áhrif á grunnþjónustu við borgarbúa – það skilaði sér á þessum tíma.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband