Að rækta garðinn sinn



Voltaire er frægasti og einn frjálslyndasti mannvinur og umbótasinni
frönsku upplýsingarinnar á 18. öld. Fræg eru lokaorðin í Birtingi
Voltaires þar sem aðalpersónan bendir okkur á að maður verði að rækta
garðinn sinn.
Í þeirri ábendingu felst mikil speki um frjálsræði, hógværð og ábyrgð:
Í góðu samfélagi hyggur hver að sjálfum sér áður en hann fer að segja
öðrum fyrir verkum eða bjarga heiminum. Við tryggjum ekki framfarir með
einum, endanlegum stórasannleik, né miðstýringu og ofskipulagningu
örfárra aðila. Við hvorki skipuleggjum framfarir né tímasetjum
uppgötvanir. Enginn sá fyrir þá gífiurlegu hagræðingu sem fólst í
sérhæfingu og markaðsvæðingu þéttbýlismyndunar. Enginn skipulagði heldur
Vísindabyltingu 17. aldar, né iðnbyltingu 18. aldar. Þær voru báðar
afsprengi menningarlegra og pólitískra aðstæðna sem höfðu í för með sér
margbreytilegan og frumlegan samanburð.
Við kaupum ekki heldur framfarir með peningum. Eitt af því fáa sem er
ókeypis í veröldinni eru raunverulegar framfarir sem yfirleitt spretta
af samanburði, útsjónarsemi og frumleika, þegar sem flestir fá að njóta
sín.Gæði menntunar fara ekki nema að litlu leyti eftir fjölda háskóla,
glæsihöllum þeirra né mikilfenglegum heitum  þeirra. Gott menntakerfi
byggir á menntun og mannrækt í góðum grunnskóla og góður grunnskóli
byggir á vali - ekki valdboði, fjölbreytni - ekki fábreytni og frelsi -
ekki forskrift.
Engu að síður hefur menntakerfi okkar mótast um of af þessum tvenns
konar misskilningi: Trúnni á kennslufræðilegan stórasannleik og trúnni á
skefjalausa efnishyggju. Það er löngu orðið tímabært að við virkjum
betur þann skapandi kraft sem felst í góðu starfsfólki grunnskólanna
okkar með makrvissara nám í grunnfögum sem markmið og frelsi og
fjölbreytni sem leiðarljós. Á sama tíma ættu menntaráð og aðrar
opinberar skólaskrifstofur að draga úr sinni forskrift og miðstýringu en
snúa sér þess í stað að þróun samanburðarforsenda.
Þannig ræktum við best garðinn okkar í menntamálum.

 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband