Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

Súrmjólk í hádeginu og Cheerios á kvöldin.....

Grafalvarleg staða er komin upp í leikskólum borgarinnar, senda þarf börnin fyrr heim og maturinn sem er á boðstólum uppfyllir ekki lengur almenn manneldismarkmið. Þrátt fyrir að allar viðvörunarbjöllur hafa klingt lengi og þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar okkar sjálfstæðismanna um að fallið verði frá ýmsum kostnaðarsömum gæluverkefnum til að komast hjá sársaukafullum niðurskurði í grunnþjónustinni hefur það ekki verið gert. Ítrekað höfum við bent á að niðurskurður á fæðisgjaldi myndi bitna á gæðum skólamáltíðanna. Nú er það komið á daginn að  hluta fæðisgjaldsins er ráðstafað til annars en hráefniskaupa þannig að leikskólar neyðast til að fjölga ódýrari og óhollari máltíðum. Það er ekki að furða að við þessi tíðindi komi laglínan súrmjólk í hádeginu og Cheerios á kvöldin upp í hugann.


Dagur B. hjólar í borgarbúa

Forgangsröðun borgarstjórnarmeirihlutans er með eindæmum. Á meðan leik- og grunnskólar í borginni eru komnir langt yfir þolmörk og hafa verið fjársveltir til margra ára þá finnst borgarstjóranum Degi B. Eggertssyni mikilvægara að kaupa land af ríkinu, þar sem neyðarbrautin er, upp á 440 milljónir í stað þess að nýta þessa fjármuni í lögboðna þjónustu í þágu skólabarna í Reykjavík. Þessi kaup hans eru reyndar í mikilli andstöðu við vilja borgarbúa sem vilja frekar hafa flugvöll í Vatnsmýrinni en blokkir. Hver undirskriftasöfnunin á fætur annarri er gerð að engu og nú er hafin undirskriftasöfnun foreldra leikskólabarna í Reykjavík þar sem skorað er á borgaryfirvöld að snúa vörn í sókn í skólamálum. Þessi forgangsröðun Dags B. og meirihlutans í borginni er óverjandi því borgaryfirvöldum ber  skylda til að láta lögboðna þjónustu ganga fyrir en ekki hrossakaup á landi. Svona hjólar Dagur í borgarbúa í hverju málinu á fætur öðru.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband