Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009
53% kvenna á móti 47% karla í ráðum og nefndum borgarinnar í núverandi meirihluta
10.12.2009 | 08:07
Í tilefni af degi mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna er opinn fundur mannréttindaráðs Reykjavíkur í Iðnó í hádeginu í dag. Fundarefnið er áhrif kvenna í stjórnmálum og atvinnulífi, formaður ráðsins setur fundinn og borgarstjóri, Hanna Birna Kristjánsdóttir, mun flytja ávarp. Þá mun dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur flytja erindið Konur og völd. Fulltrúar allra framaboða munu flytja erindi og sitja fyrir svörum. Mannréttindastefna borgarinnar er m.a. byggð á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Reykjavíkurborg hefur verið í forystuhlutverki í jafnréttismálum um áratuga skeið sem endurspeglast vel í því að í fjórða og núverandi meirihluta er skipting aðalmanna í ráð og nefndir 53% kvenna á móti 47% karla sem verður að teljast nokkuð athyglisvert.
Í borgarstjórn núna er í gangi fyrsta umræða um frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar. Leiðarljósið við gerð fjárhagsáætlunarinnar er að forgangsraðað verður í þágu barna og velferðar án þess að hækka skatta eða gjöld á borgarbúa. Það er sérstakt gleðiefni að náms- og fæðisgjöld í skólum verða óbreytt auk þess sem 100% systkinaafsláttur á leikskólum verður áfram í gildi. Góður árangur hefur náðst í rekstri Reykjavíkurborgar það sem af er þessu ári og eru svið borgarinnar rekin innan fjárheimilda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.12.2009 kl. 10:25 | Slóð | Facebook
Ómerkileg úrræði vinstri manna
2.12.2009 | 16:46
Vinstri Grænir lögðu til í borgarráði í gær að útsvarsheimildir borgarinnar yrðu fullnýttar og færu úr 13,03% í hámarkið sem er 13,28 %. Eina leiðin sem VG virðist sjá út úr þeim vanda sem blasir við þjóðinni er að hækka álögur á heimilin og fyrirtækin í landinu. Þessi tillaga borgarfulltrúans Þorleifs Gunnlaugssonar skýtur svolítið skökku við þar sem umtalsverð hagræðing hefur náðst í borginni án þess að til komi hækkanir á gjöldum eða uppsagnir starfsfólks. Auknar álögur á fólk og fyrirtæki geta haft þær alvarlegu afleiðingar að ráðstöfunartekjur heimilanna minnka og þar með geta þeirra til að greiða skuldir sínar og sjá fyrir sér og sínum. Tillaga borgarfulltrúans, Þorleifs Gunnlaugssonar, yrði enn einn bagginn sem lagður yrði á herðar fólks ef hún næði fram að ganga. Sama er upp á teningnum hjá VG í borgarstjórn og í ríkisstjórn, þeir virðast vera algjörlega úrræðalausir þegar kemur að því að koma með tillögur til úrbóta og dettur ekkert annað í hug en að lausnin felist í að hækka skatta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.12.2009 kl. 10:25 | Slóð | Facebook
Nú stendur yfir vinna við fjárhagsáætlun borgarinnar en það sem er nýtt í þeirri vinnu er að nú geta íbúar haft bein áhrif á nýtingu fjármuna í sínu nærumhverfi með því að kjósa um einstök verkefni á vefnum, á bókasöfnum eða á þjónustumiðstöðvum. Kosningin hófst í morgun og stendur til 14. desember og verður niðurstaða kosninganna bindandi fyrir borgaryfirvöld. Það verður spennandi að sjá hvað borgarbúar leggja mesta áherslu á í sínum hverfum.