Á íslensku má alltaf finna svar

Tungumálinu er stundum líkt við verkfæri, svona eins og hamar og sög, liti og pensla, blað og blýant, eða tölvu. Og það er nú ekki alveg út í hött,  því vissulega notum við tungumálið í margvíslegum tilgangi. En sá tilgangur er einmitt svo ótrúlega margvíslegur og ,,verkfærið‘‘ svo magnað, að við komumst fljótlega að þeirri niðurstöðu, að samlíkingin sé alltof einföld og yfirborðskennd.

Við notum tungumálið til að tjá okkur, til að koma skilaboðum áleiðis til annarra einstaklinga. Þannig er tungumálið eilíf brúarsmíði milli ólíkra einstaklinga, ólíkra hagsmuna og ólíkra viðhorfa. Þessi óteljandi og margvíslegu skilaboð eru þrungin merkingu sem getur tjáð, jöfnum höndum, - gleði og sorg, - ást og hatur, - hrósyrði og skammir, - sigra og vonbrigði. Við getum látið ljót orð falla sem særa annað fólk og brjóta það niður. En við getum einnig notað tungumálið til að hughreysta aðra, sýna þeim samstöðu og byggja þá upp. Því eins og Einar Benediktsson, annað íslenskt stórskáld, segir í einu af sínum frægustu ljóðum, Einræðum Starkaðar:

,,Eitt bros – getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

 

En tungumálið er ekki bara samskiptatæki því án tungumálsins gætum við ekki hugsað svo heitið gæti. Tungumálið er því forsenda fyrir kenningum og fræðum, tækniþróun, framförum og vísindalegum uppgötvunum. Og þar sem tungumálið er forsenda fyrir hugsunum okkar geymir það í hugskotunum okkar dýrustu leyndarmál, vonir og þrár. Tungumálið er lykillinn að sögu okkar, m.a. þeim tíma þegar þessi þjóð átti ekkert, - til að orna sér við, - nema íslenska tungu. Og tungumálið  er lykillinn að landinu okkar, því eins og Tómas Guðmundsson, annað íslenskt stórkáld sagði:

,,Landslag væri lítils virði,
ef það héti ekki neitt.‘‘

Íslensk tunga er vissulega verkfæri í margvíslegum og mikilvægum skilningi. En hún er svo miklu, miklu meira. Hún er órjúfanlegur hluti af okkur sjálfum, fortíð okkar, nútíð og framtíð.

Franski heimspekingurinn og rithöfundurinn Voltaire, endar sína óborganlegu bók, Birting, á eftirfarandi orðum:

,,Þetta er vel mælt, svaraði Birtingur, en maður verður að rækta garðinn sinn.‘‘

Hér á Voltaire við að það fari best á því að hver og einn rækti sjálfan sig, - reyni sífellt að verða betri manneskja, í dag en í gær. Við ykkur, kæru nemendur vil ég því segja hér í lokin: Haldið þið áfram að rækta íslenska tungu. Þannig ræktið þið best ykkur sjálf, - ykkur og öðrum til blessunar.

Brot úr ræðu sem ég hélt við afhendingu Íslenskuverðlauna menntaráðs Reykjavíkur í Ráðhúsinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband