Lögfræðileg ráðgjöf á bókasöfnum borgarinnar
22.2.2010 | 11:31
Mannréttindaráð Reykjavíkur styrkir Orator, félag laganema við HÍ, til þess að veita borgarbúum lögfræðilega ráðgjöf sem fram fer á bókasöfnum borgarinnar en þar munu laganemar leiðbeina og ráðlegga fólki því að kostnaðarlausu. Um er að ræða tilraunaverkefni sem mun standa fram á vorið. Markmiðið með stuðningi mannréttindaráðs er að efla það góða starf sem Orator stendur fyrir og gefa enn fleiri einstaklingum kost á þeirra þjónustu. Þörfin fyrir lögfræðilega ráðgjöf hefur aukist til muna á síðustu misserum vegna efnahagsástandsins og því ákvað Mannréttindaráð Reykjavíkur að styðja Orator til verkefnisins.Orator félag laganema hefur starfrækt lögfræðiráðgjöf frá árinu 1981 þar sem almenningi gefst kostur á að fá upplýsingar um réttarstöðu sína án endurgjalds. Ráðgjöfin hingað til hefur farið fram einu sinni í viku þar sem fólki gefst kostur á að hringja inn með spurningar um lögfræðileg álitaefni. Það eru eingöngu laganemar sem eru í meistaranámi sem sinna þessari ráðgjöf undir leiðsögn útlærðs lögfræðings.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook