Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Drögum úr skutli

Þegar skólarnir hefjast á haustin er að mörgu að hyggja og eitt af því er hvernig börnin ferðast til og frá skóla. Sú þróun hefur orðið á allra siðustu árum að foreldrar skutli börnum sínum í skólann í auknum mæli enda eru þeir yfirleitt sjálfir á leið til vinnu á sama tíma. Mikið umferðaröngþveiti myndast oft við skólana í upphafi skóladags sem getur skapað slysahættu og hefur í för með sér töluverða mengun. Til að koma í veg fyrir þetta umferðaröngþveiti og draga úr slysahættu þurfa enn fleiri foreldrar að leggjast á árarnar og hvetja börnin sín til að ganga eða hjóla í skólann.Þeir sem ekki eiga annan kost en að aka börnum sínum ættu að koma sér upp skiptikeyrslu við aðra foreldra en þannig getum við dregið úr akandi umferð við skólana. Það skiptir miklu máli að foreldrar hvetji börnin sín til að ganga eða hjóla í skólann því þannig getum við haft áhrif á aukna hreyfingu barnanna og komið í veg fyrir ýmsa heilsufarslega kvilla sem eru afleiðingar hreyfingaleysis. Þá getur þetta orðið ein mesta gæðastund fyrir barnið og foreldrana þar sem gefst tími til að spjalla og foreldrið farið auk þess yfir helstu  umferðarreglur og öryggi í leiðinni. Fyrir eldri börnin sem ekki þurfa að fara í fylgd með fullorðnum geta skapast jákvæð félagsleg tengsl við skólafélagana og aukin hreyfing orðið liður í hollari lífsháttum til framtíðar. Síðast en ekki síst koma börnin glaðari og hressari í skólann eftir holla hreyfingu og útivist í morgunsárið og njóta þar  með skóladagsins betur.




Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband