Borgaryfirvöld hafa kvittað upp á að hlusta ekki á raddir foreldra

Meirihluti borgarstjórnar hefur ekki hlustað, hlustað á þær 12.000 raddir borgarbúa sem hafa mótmælt þeim sameiningartillögum skóla og frístundaheimila sem keyrðar voru í gegn á borgarstjórnarfundi í gær. Meirihlutinn hefur heldur ekki hlustað á þá fagaðila í menntamálum sem gagnrýnt hafa sameiningartillögurnar harðlega og bent á að þær skorti framtíðarsýn.Meirihlutinn hefur jafnframt kosið að líta framhjá þeirri staðreynd að 90% þeirra umsagna sem borist hafa eru á neikvæðum nótum og að foreldrar hafi krafist þess að tillögurnar verði dregnar til baka.

 Rauði þráðurinn á þeim fjölmörgu fundum sem haldnir hafa verið í hverfum borgarinnar að undaförnu er að tillögurnar séu illa ígrundaðar, að þær skili hvorki faglegum né fjárhagslegum ávinningi og á öllum þessum fundum var kvartað undan samráðsleysi við foreldra og fagfólk í þessu máli. Foreldrar hafa margítrekað óskað eftir virku samráði um hagræðingartillögurnar án árangurs.

  Nú liggur fyrir að farið verður í sameiningar í flestum hverfum borgarinnar nema í Vesturbæ og Breiðholti. Með því að fresta niðurskurði í þessum tveimur hverfum og gera skólasamfélaginu þar kleift að koma að hagræðingartillögunum er jafnræðis ekki gætt milli hverfa. Því hlýtur sú spurning að vakna hvers vegna þessi tvö hverfi hafi þessa sérstöðu.  Að mínu viti er það sjálfsögð og eðlileg krafa að jafnræðis sé gætt og öll hverfi sitji við sama borð þegar kemur að því að móta tillögur um hvernig best sé að hagræða í skólum borgarinnar.Sameiningartillögurnar hafa valdið miklum óróa og uppnámi í skóla- og frístundastarfi og það vill stundum gleymast í umræðunni að við erum hér að tala um yngstu þjóðfélagsþegnana – börnin í borginni sem aldrei fyrr þurfa á festu og stöðugleika að halda í því mikla atvinnuleysi og efnahagsþrengingumsem blasa við í samfélaginu.

 Þegar erfiðleikar steðja að á borð við þessa  á skólinn að vera skjól fyrir börnin þar sem tilveran gengur sinn vanagang. Við eigum að leggja allt kapp á að vernda skólastarfið og forgangsraða í þágu barnanna. Það hefur meirihluti borgarstjórnar hins vegar ekki gert nú þegar hann tekur ákvarðanir þvert á vilja foreldra og fagfólks í borginni. Meirihlutinn kýs að hagræða með því að byrja á þeirri lögbundnu þjónustu sem snýr að börnunum í borginni í stað þess að byrja á ólögbundinni þjónustu eins og grasslætti og steinsteypu eða öðrum þeim verkefnum sem hæglega má slá á frest. Við eigum að setja börnin í borginni í forgang og vernda þá þjónustu sem snýr að þeim því við frestum ekki menntun og uppeldi barnanna okkar. Borgaryfirvöld eiga að sína sóma sinn í því að hlusta á raddir foreldra því það eru þeir sem bera ábyrgð á uppeldi og menntun barna sinna og vita hvað þeim er fyrir bestu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband